Jón Már Halldórsson _stjórnarformaður

 

Sterkar verkfræðistofur hraða uppbyggingunni

Við bindum vonir við að kyrrstaðan í íslensku samfélagi verði rofin fyrr en síðar og fjárfestingar komist aftur í eðlilegt horf. Þegar þar að kemur er mikilvægt að hafa öflug verkfræðifyrirtæki innanlands sem gefa færi á að ganga tiltölulega hratt að uppbyggingunni. Þjónustan er fyrir hendi, þekkingin er fyrir hendi og allt verður miklu einfaldara með þessi fyrirtæki til staðar. Sterkar verkfræðistofur eru grundvöllur að hraðri uppbyggingu og það er einmitt það sem íslenskt samfélag þarf nú.

Það skiptir máli innan fyrirtækisins og í allri kynningu að fá viðurkenningu á borð við þá að vera útnefnt „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ árið 2012. Það sýnir að við erum að gera eitthvað rétt.

Allt er þetta í anda gæðastjórnunar og við vinnum öll hjá Mannviti samkvæmt mælanlegum markmiðum, hvort sem um er að ræða stjórn eða verkefnahópa. Við ætlumst til að þessi gæðahugsun smiti út frá sér, ekki bara innan Mannvits heldur út á við til viðskiptavinanna. 

Þetta er eins og með öryggishugsunina sem við leggjum líka mikla áherslu á. Við reynum að koma henni til skila bæði beint og óbeint. Við hönnum eftir skilgreindum ferlum og öryggis- og gæðahugsun er númer eitt í öllu sem við gerum.

Sameiginlegur ávinningur


Eins og handboltalandsliðið


Mannviti hefur tekist að setja sér raunhæf markmið sem við höfum að mestu náð og við erum hnitmiðuð í því sem við erum að gera. Við erum enn að auka áherslu á verkefnastjórnun og verkefnagát og með því móti viljum við sjá fram á hagkvæmari verkefni, minni afskriftir af vinnutímum okkar fólks og betri verkefnaskil bæði fyrir okkur og verkkaupann. Þetta er sameiginlegur ávinningur og verkkaupinn fær verkefnið með betri gæðum. 

Það er afar áríðandi að viðskiptavinirnir finni að við vitum nákvæmlega hvert við erum að fara. Þannig byggjum við upp traust sem er forsenda allra viðskipta, sérstaklega ef við viljum fá viðskiptavininn aftur til okkar. Og traust er einmitt eitt af gildum Mannvits.

Það er náttúrulega ljóst að alltaf þegar kreppir að líkt og í kjölfar hrunsins 2008 eða þegar afturkippur verður eins og síðari hluta ársins 2012, reynir á starfsandann í fyrirtækjum. Það hefur komið í ljós að þó að á brattann sé að sækja er starfsandinn alltaf góður hjá okkur. Reyndar erum við svolítið dreifð, bæði um landið og innan höfuðborgarsvæðisins, og auðvitað myndast að einhverju leyti sérstakur bragur á hverjum stað. Andinn er góður þó að hann sé ekki endilega einsleitur. Það er líkt með okkur og íslenska handboltalandsliðinu að við stöndum okkur aldrei betur en þegar við erum komin með bakið upp að vegg. Þá sýnum við virkilega hvað í okkur býr og stöndum þétt saman.

Það er ótrúlegt hvernig ákveðin öfl hafa séð hag sinn í því að gera áliðnaðinn að skotspæni sem óvin þjóðarinnar.


Áliðnaðurinn er akkeri


Mannvit er góður vinnustaður fyrir menntað fólk fyrir utan að skapa beinar tekjur fyrir þjóðina, bæði fyrir einstaklinga og ríkið. Svo er fyrirtækið stökkpallur fyrir þróun, enda á  heilmikil þekkingarmyndun sér stað innan Mannvits sem skapar möguleika á útflutningi. Ef við tökum þjónustu okkar við áliðnaðinn sem dæmi, þá er ljóst að menn flytja ekki út slíka þekkingu nema vera komnir með góðan grunn heima fyrir. 

Það er ótrúlegt hvernig ákveðin öfl hafa séð hag sinn í því að gera áliðnaðinn að skotspæni sem óvin þjóðarinnar. 

Sannleikurinn er sá að álfyrirtækin eru að mörgu leyti til fyrirmyndar. Áliðnaðurinn borgar mjög vel, þar er lítil starfsmannavelta, hann greiðir heilmikla skatta til þjóðarbúsins þótt öðru sé haldið fram og skapar um einn fjórðung af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Ég veit ekki hvers vegna menn reyna að tala þennan iðnað niður þegar staðreyndin er sú að hann er eitt af akkerum þjóðarhags í þessu landi. 

Kenneth Peterson, sem stofnaði Norðurál, hafði til að mynda þá stefnu að vinna með íslenskum verkfræðistofum. Þegar fyrirtækið 
kom hingað unnum við áfanga eitt með Ken Home í Bretlandi en síðan tókum við þetta að okkur upp á eigin spýtur í þeim áföngum sem á eftir komu. Það tókst sem sagt hjá Norðuráli að byggja upp íslenska sérþekkingu á þessu sviði. Þetta var ekki bara okkur og íslensku samfélagi hagstætt heldur líka Norðuráli því það er augljóst að íslenskir aðilar geta boðið miklu hagkvæmari þjónustu hér innanlands  en innfluttir sérfræðingar. Þeir þurfa að ferðast, þurfa húsnæði og þurfa að læra inn á hlutina hér á landi svo að eitthvað sé nefnt.

Þarf krítískan massa


Olían á 25 ára áætlun


Mannvit er stærsta verkfræðistofan í landinu. Það er tölulega mælanlegt að við erum með stærstu markaðshlutdeildina. Við erum líklega einnig með flest fagsviðin og þar af leiðandi breiðustu þjónustuna. Við erum náttúrulega um leið með mesta slagkraftinn í markaðssókn, stærðin gerir okkur það kleift, og við höfum haldið innlendri markaðshlutdeild vel.

Þegar við tölum um markaðssetningu erlendis er hins vegar ljóst að til þess að ná árangri  þarf lágmarks framboð af mannskap og þekkingu. Þetta næst helst með samstarfi við aðra, sem geta bæði verið önnur íslensk fyrirtæki og stórir erlendir aðilar. 

Aðferðafræðin í erlendu markaðssókninni byggir því á þessari hugmyndafræði. Það má í raun segja að áliðnaðurinn á Íslandi sé ekki innlendur markaður heldur alþjóðlegur þar sem alþjóðleg fyrirtæki sækja mjög í álverkefni hér innanlands. Til að bregðast við þessari samkeppni höfum við m.a. verið í samstarfi við verkfræðistofuna Verkís um rekstur HRV sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig aðallega í álverkefnum.  Með því að taka höndum saman um rekstur HRV hefur okkur tekist að færa verulegan hluta af verkefnum tengdum áliðnaðinum til innlendra aðila og þannig tökumst við á við þá alþjóðlegu samkeppni sem áliðnaðurinn er. 

Ef við lítum 5 ár fram í tímann, er markmiðið að vera með mun stærri hluta af veltunni erlendis og þá með einhverjum hætti í gegnum samstarf við erlenda aðila. Mikilvægustu langtímaverkefnin hljóta að liggja í því sem við erum best í, þ.e. orku og iðnaði og þá ekki síst á sviði jarðhita. Þar greinum við okkur vel frá flestum okkar keppinautum og því er ekki ósennilegt að jarðhitinn verði burðarás ytra í framtíðinni. 

Olían er svo aftur 25 ára planið. Íslendingar eiga náttúrlega að taka fullan þátt bæði í rannsóknum og vinnslu á olíu ef hún finnst. Bara það að finna hana er mikið verkefni. Við þurfum þó klárlega samstarfsaðila erlendis frá til að ná góðum tökum á olíuiðnaðinum, alla vega í upphafi eins og reyndist okkur vel í áliðnaðinum.